Umhverfis­uppgjör

Birta lífeyrissjóður hefur sett sér markmið í umhverfismálum og skilgreint mikilvæga umhverfisþætti í starfseminni. Þessum þáttum er stýrt og þeir vaktaðir sérstaklega.

Helstu þættir umhverfisuppgjörs á rekstri Birtu á árinu 2022

Mikilvægir þættir í starfsemi Birtu með tilliti til umhverfisáhrifa

Umhverfisþættir sem skilgreindir eru mikilvægir í starfseminni hafa verið metnir með tilliti til umhverfisáhrifa og áhættu. Þeir eru vaktaðir og niðurstöður skráðar í vöktunarskjal svo hægt sé að fylgjast með þróun þeirra með tilliti til markmiða sem sjóðurinn hefur sett sér.

Birta lífeyrissjóður beinir viðskiptum sínum til birgja sem hafa stefnu í umhverfismálum, sé þess kostur, og vekur athygli birgja á stefnu og starfsháttum sjóðsins í umhverfismálum.

Helstu þættir umhverfisuppgjörs á rekstri Birtu á árinu 2022

Raforka

Raforkunotkun í starfsemi Birtu fellur undir umhverfisþáttinn. Rekstur skrifstofuhúsnæðis sjóðsins krefst lágmarksorku. Fylgst er með orkunotkun frá ári til árs eins og kostur er en rafmagns- og heitavatnsnotkun er að hluta til mæld á sameiginlegum orkumælum hússins og er hlutfall sjóðsins reiknað sem hlutfall af nýttum fermetrafjölda hússins. Sjóðurinn setur sér markmið um orkusparnað og nýtingu orkunnar sett til eins árs í senn. Á árinu 2022 festi sjóðurinn kaup á 5. - 7. hæð Sundagarða 2 en starfsemi sjóðsins var áður á 5. hæð og hluta af 4. hæð. Hlutdeild sjóðsins í fermetrafjölda hússins fór úr 29,18% í 50,99% sem varð til þess að orkunotkun jókst í hlutfalli við aukinn fermetrafjölda. Rafmagnsnotkun sjóðsins jókst um 6,1% kílóvattstundir á milli ára.

Heitt og kalt vatn

Umhverfisþátturinn tekur til notkunar á heitu og köldu vatni á skrifstofu sjóðsins. Heitavatnsnotkunin tengist að miklu leyti upphitun húsnæðis en annars leitast starfsmenn við að takmarka notkun á heitu og köldu vatni. Notkun á heitu vatni jókst um 34,4% og notkun á köldu vatni um 60,4% í rúmmetrum talið.

Pappír

Umhverfisþátturinn á við um notkun á gæðapappír og kynningarefni á pappírsformi.

Pappírsnotkun á starfsmann var um 111 bls. á árinu 2022 samanborið við 450 bls. á árinu 2021. Starfsmenn eru hvattir til að lesa frekar á skjá en prenta skjöl en prenta þá báðum megin á blöð nema annars sé krafist. Gætt er að því að pappír sem notaður er komi úr nytjaskógum. Ljósritunarpappír er skráður í vöktunarskjal við innkaup og þannig fylgst með notkuninni.

Stafræn þjónusta við sjóðfélaga hefur aukist mjög í seinni tíð og með því móti dregur mjög úr pappírsnotkun og prentun. Mestu máli skiptir þó að þjónusta sjóðsins verður á þennan hátt einfaldari, skjótari og skilvirkari en áður. Sjóðfélagar geta í mörgum tilvikum rekið erindi sín gagnvart sjóðnum með tölvusamskiptum frá heimili eða vinnustað og sparað sér ferðir á skrifstofu Birtu.

Varasöm efni

Umhverfisþátturinn varðar notkun allra merkingarskyldra efna í starfsemi sjóðsins. Heildarmagnið er óverulegt og leitast við að nota umhverfisvæn efni til þrifa.

Fastur úrgangur

Umhverfisþátturinn varðar annan úrgang frá sjóðnum en spilliefni, til dæmis almennt sorp, pappír, dagblöð, tímarit, plast, skilagjaldsumbúðir og trúnaðargögn. Leitast er við að flokka sorp er fellur til í starfseminni. Fastur úrgangur er vigtaður tvisvar á ári og niðurstöður skráðar í vöktunarskjal.

Sjóðurinn hefur að markmiði að minnka úrgang sem fellur til í starfseminni.

Sjóðurinn leitast við að nota endurunnin hráefni í starfsemi sína eins og við verður komið.

Akstur og flug starfsmanna

Eldsneytisnotkun er umhverfisþáttur Birtu og varðar akstur starfsmanna á einkabílum á vegum vinnu og ferðir til og frá vinnu. Undir sama umhverfisþátt fellur losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða starfsmanna á vegum sjóðsins.

Upplýsingar um akstur og flug eru færðar í reiknilíkan sem skilar niðurstöðum í formi kolefnisfótspors. Á árinu 2022 voru farnar 28 vinnutengdar flugferðir sem losuðu um 6,1 tonn af gróðurhúsalofttegundum sem er hækkun frá fyrra ári. Nánari upplýsingar má finna í viðauka við ársreikning sjóðsins.

Lykiltölur úr umhverfisbókhaldi

Rekstur sjóðsins

2022 2021 2020
Áhrif Umfang Þáttur kg CO2 ígilda kg CO2 ígilda kg CO2 ígilda
Bein 1 Akstur starfsmanna á vegum sjóðsins 681 397 389
Óbein 2 Raforka 723 679 601
Óbein 2 Heitt vatn 1.104 725 585
Óbein 3 Akstur starfsmanna til og frá vinnu 9.374 16.462 18.090
Óbein 3 Flug innanlands 40 - -
Óbein 3 Flug erlendis 3.720 1.711 2.387
Óbein 3 Urðun úrgangs (almennur) 192 34 18
Óbein 3 Lífrænt efni til moltugerðar 223 114 97
Samtals 16.058 20.121 22.167
kg/CO2 á starfsmann: 597,0 kg/CO2 á starfsmann: 703,5 kg/CO2 á starfsmann: 797,4

Hlutfallsleg losun

Árið 2022