Ábyrgar fjárfestingar

Birta lífeyrissjóður leggur áherslu á sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð í fjárfestingum sínum. Stjórn sjóðsins telur að með því að marka og framfylgja stefnu um ábyrgar fjárfestingar stuðli sjóðurinn að jákvæðum áhrifum á umhverfið, heilbrigðara atvinnulífi og bættum samskiptum við hagaðila.

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar

Með því að marka stefnu um ábyrgar fjárfestingar stuðlar Birta að jákvæðari áhrifum á umhverfið, heilbrigðara atvinnulífi og bættum samskiptum við hagaðila

Ein birtingarmynd sjálfbærni og samfélagslegrar ábyrgðar Birtu lífeyrissjóðs er aðild sjóðsins að sáttmála Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um ábyrgar fjárfestingar "UN PRI Principle for Responsible Investment". Það er mat stjórnar Birtu að eðlilegt sé að byggja samfélagslega ábyrgð og siðferðisleg viðmið í fjárfestingum lífeyrissjóðsins á grunni þessa sáttmála þar sem hann hefur að geyma viðmið sem viðurkennd eru af alþjóðasamfélaginu. Sáttmálinn er leiðbeinandi fyrir stofnanafjárfesta um allan heim og felur í sér að þátttakendur skuldbinda sig til að taka tillit til umhverfis- og félagslegra þátta við fjárfestingar sínar, auk þess að leggja áherslu á stjórnarhætti.

Innleiðing grundvallarviðmiða SÞ í fjárfestingarstarfsemi Birtu

Grundvallarviðmið SÞ sáttmálans eru sex talsins og hefur Birta kappkostað að innleiða þessi viðmið í fjárfestingarstarfsemi sína þar sem því hefur verið viðkomið. Eftirfarandi upptalning lýsir því hvernig sjóðurinn hefur og hyggst framfylgja stefnu sinni um ábyrgar fjárfestingar að teknu tilliti til grundvallarviðmiða SÞ.

1. Birta tekur mið af umhverfis- og félagslegum þáttum ásamt stjórnarháttum (UFS) við mat á fjárfestingarkostum og við ákvarðanir um fjárfestingar

Birta lífeyrissjóður er þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi ásamt fleiri íslenskum lífeyrissjóðum sem felur í sér að ná fram ákveðnum markmiðum í loftslagsmálum, t.a.m. með fjárfestingu í félögum sem framleiða sjálfbæra orku eða tengjast með einum eða öðrum hætti orkuskiptum í samgöngum og iðnaði. Aðrar fjárfestingar koma líka til álita en tilgangurinn er að þær byggi í grunninn á markmiðum um kolefnishlutleysi. Viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð þann 1. nóvember 2021. Markmið stjórnar Birtu miðast við að fjárfesta sem nemur um 8% af eignasafni samtryggingardeildar sjóðsins fram til ársloka 2030. Umfjöllun um kolefnishlutleysi má finna í kafla 3.2 Leiðin að kolefnishlutleysi.

Alþjóðlegt samstarf

Birta er þátttakandi í samstarfi norrænna og breskra lífeyrissjóða um fjárfestingar í hreinni orkuframleiðslu

Viljayfirlýsing íslensku lífeyrissjóðanna gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition (CIC) kveður á um fjárfestingu fyrir samtals 4,5 milljarða Bandaríkjadala, sem samsvarar um 580 milljörðum íslenskra króna, í verkefnum sem tengjast hreinni orku og öðrum umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030. Með yfirlýsingunni staðfesta íslensku sjóðirnir vilja sinn til að styðja við markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu sem á rætur sínar að rekja til Parísarsáttmálans sem var undirritaður árið 2015 og mótun heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þá er meðal annars horft til verkefna sem nýta jarðvarma en einnig er stefnan að styðja við aukna notkun annarra sjálfbærra orkugjafa með það að markmiði að stuðla að aukinni notkun hreinnar orku í samgöngum og atvinnustarfsemi.

Við undirritun viljayfirlýsingarinnar var metið gróflega að um 2,85% af eignasafni samtryggingardeildar Birtu, eða sem samsvaraði um 15 milljörðum íslenskra króna á þeim tíma, væri í umhverfisvænum fjárfestingum skv. skilyrðum CIC. Það markmið sem sjóðurinn stefnir að því að uppfylla fyrir árslok 2030 með nýfjárfestingum í þessum eignaflokki var metið um 66 milljarðar króna á þessum sama tímapunkti.

Á tímabilinu 1. nóvember 2021 til ársloka 2022 fjárfesti Birta fyrir um 1 milljarð íslenskra króna í verðbréfum sem teljast til umhverfissjálfbærra fjárfestinga skv. skilyrðum CIC. Þessu til viðbótar undirritaði sjóðurinn áskriftarsamning við erlendan umsýsluaðila sem mun leitast við að fjárfesta í félögum sem hafa það markmið að efla bæði umhverfis- og félagslega þætti. Áskriftarfjárhæðin er allt að 25 milljónir Bandaríkjadala eða um 3,5 milljarðar íslenskra króna. Fjárfestingartímabilið spannar fimm ár með möguleika á eins árs framlengingu, sem þýðir að innköllun áskriftarinnar er að meðaltali 700 milljónir íslenskra króna á ári (án framlengingar). Umsýsluaðili sjóðsins er með metnaðarfulla stefnu í ábyrgum fjárfestingum sem hefur hlotið t.a.m. 39 stig af 42 mögulegum samkvæmt einkunnarskala UN PRI.

2. Birta er virkur eigandi hlutafélaga þar sem sjóðurinn telst eiga meiriháttar eignarhlut í samkvæmt eigendastefnu sjóðsins

Möguleikar sjóðsins til áhrifa ráðast eðli málsins samkvæmt af eignarhaldi sjóðsins og hlutdeild hans í einstökum félögum. Meiriháttar eignarhlutur telst vera annað hvort hlutdeild í félagi sem nemur meira en 0,5% af heildareignum Birtu eða 5% eða stærri eignarhlutur í einstöku félagi skv. eigendastefnu Birtu lífeyrissjóðs.

Nánari upplýsingar má finna í kafla 5.2 Hagsmunagæsla.

Sjóðurinn sækir hluthafafundi þeirra markaðsskráðu félaga sem hann á eignarhlut í og birtir upplýsingar um vægi eignarhlutar og ráðstöfun atkvæðisréttar í þessum félögum á heimasíðu sjóðsins á hverju ári.

3. Birta sækist eftir viðeigandi upplýsingum um UFS-málefni frá mótaðilum sínum í viðskiptum

Aðkoma Birtu að einstökum fjárfestingaverkefnum kallar á umfangsmikla vinnu við áreiðanleika viðkomandi fjárfestingar. Að viðbættri fjárhagslegri, lagalegri og stundum tæknilegri greiningu er það metið sérstaklega og þá kallað eftir upplýsingum þess efnis hvort og þá hvaða UFS-þættir eru lagðir til grundvallar tiltekinni fjárfestingu og hvernig henni sé framfylgt af hálfu félagsins eða umsýsluaðilans. Í flestum tilvikum á þetta verklag við um óskráðar fjárfestingar sjóðsins eða sérhæfðar fjárfestingar í gegnum sjóði um sameiginlega fjárfestingu.

4/5. Birta mun beita sér fyrir því að grundvallarviðmið sáttmála SÞ verði innleidd í fjárfestingarstarfsemi sjóðsins og auka hæfni starfsmanna til að framfylgja reglunum

Birta mun gera auknar kröfur til þeirra innlendu félaga sem sjóðurinn á meiriháttar eignarhlut í skv. eigendastefnu Birtu. Þá hefur sjóðurinn sett sér það markmið að mæla hegðun þessara félaga á milli ára í málefnum er varða umhverfið. Í þessari ársskýrslu er nú birt í fyrsta skipti mælingar á losun gróðurhúsalofttegunda frá skráðum innlendum félögum. Sjá umfjöllun í kafla 3.2 Leiðin að kolefnishlutleysi.

Birta lífeyrissjóður er einn af stofnaðilum samtakanna IcelandSIF en tilgangur þeirra er að efla þekkingu fjárfesta og auka umræðu um aðferðarfræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Að mati stjórnar Birtu er stöðug fræðsla og virk umræða í þessum málaflokki nauðsynleg þar sem sjálfbærar fjárfestingar eru ört vaxandi eignaflokkur í eignasöfnum lífeyrissjóða og annarra stofnanafjárfesta. Þá sækir starfsfólk Birtu bæði námskeið og ráðstefnur, hérlendis og erlendis, tengdum fjárfestingum og UFS málefnum, og dýpkar þannig skilning sinn á málefninu.

6. Eignastýringarsvið Birtu skilar skýrslum um starfsemi sjóðsins og upplýsir sjóðfélaga um árangur af innleiðingu viðmiðanna

Aðild Birtu að Sáttmála SÞ felur meðal annars í sér árleg skýrsluskil þar sem gert er grein fyrir þeim ferlum innan sjóðsins sem snúa að sjálfbærnitengdum þáttum í fjárfestingum hans, þvert á eignaflokka. Þátttakendum eru úthlutaðar einkunnir í hinum ýmsu flokkum þannig að hægt er að glöggva sig á hvernig tekst til við innleiðingu viðmiðanna. Hér má sjá niðurstöður úttektar UN PRI fyrir árið 2021.

Skýrslum aðildarfélaga UN PRI er ekki skilað fyrr en í maí ár hvert og birtar í nóvember. Samanburður á niðurstöðum Birtu á milli áranna 2021 og 2022 er þar af leiðandi ekki til að dreifa. Þar sem kerfislegar breytingar áttu sér stað á skýrsluskilum til PRI á árinu 2022 vegna ársins 2021 eru fyrri PRI skýrslur sem sjóðurinn hefur skilað inn ekki samanburðarhæfar við þá skýrslu sem hér er birt.

Sjá nánar í kaflanum Áherslur í upplýsingum um sjálfbærni undir 3.2 Leiðin að kolefnishlutleysi.