Rekstur lífeyrissjóðs er ekki orkufrekur rekstur en Birta telur það engu að síður mikilvægt að vera fyrirmynd og setja sér metnaðarfull markmið varðandi mælingu útblásturs, minnkun á kolefnisspori og mótvægisaðgerðir
Leiðin að árangri
Ein af lykil framtíðaráherslum Birtu er að stýra starfsemi sjóðsins og eignasafni hans í átt að fullu kolefnishlutleysi (e. net-zero) árið 2040 og styðja þannig við loftslagsmarkmið Íslands og Parísarsamninginn.
Birta byggir kolefnisútreikninga sína á alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol, út frá beinni og óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) sem er skilgreind á eftirfarandi hátt:
Birta styðst við PCAF (e. Partnership for Carbon Accounting Financials) staðalinn til ramma inn áætlaða losun gróðurhúsaloftegunda út frá eignasafni. PCAF-aðferðafræðin er alþjóðlegt samstarfsverkefni fjármálastofnanna sem vinnur að því þróa og innleiða samræmda nálgun til að meta og birta losun gróðurhúsaloftegunda (GHL) og byggir á áðurnefndum Greenhouse Gas Protocol. Sjóðurinn notaðist við upplýsingar úr sjálfbærnikerfinu Klappir og sjálfbærniskýrslum skráðra félaga.
Varðandi mælingar á GHL í rekstri er notast við reiknilíkan frá verkfræðistofunni Eflu en sjóðurinn naut ráðgjafar frá Eflu þegar kom að innleiðingu ISO 14001 umhverfisstaðlinum.
Nýjar reglur til fyrirtækja og fjárfesta
Á árinu 2023 munu nýjar reglur um form og efni sjálfbærniupplýsinga fyrirtækja og fjárfesta (CSDR/ESRS og EU-taxonomy) sem og upplýsingagjöf tengdri sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (SFDR) taka gildi. Sjálfbærniupplýsingar samkvæmt CSDR munu koma í stað þeirra upplýsinga sem krafist er samkvæmt 66. gr. d) laga um ársreikninga. Upplýsingagjöf tengd sjálfbærni mun snerta stefnu um ábyrgar fjárfestingar hjá sjóðnum, sjá nánar í kafla 1.5 Ábyrgar fjárfestingar.
Sjóðurinn vinnur að undirbúningi fyrir þessar reglugerðir með því að aðlaga upplýsingagjöf sína að þeim sem og að móttaka upplýsingar frá mótaðilum í eignasafni sjóðsins. Undirbúningurinn fléttast saman við markmið sjóðsins um að ná kolefnishlutleysi fyrir bæði rekstur og eignasafn sitt fyrir árið 2040.
Einnig hefur sjóðurinn undirritað viljayfirlýsingu Climate Investment Coalition (CIC) um aukningu grænna nýfjárfestinga í eignasafni sjóðsins, sjá nánari umfjöllun í kafla 1.5 um Ábyrgar fjárfestingar.
Því hefur sjóðurinn varðað leiðina í áföngum til að ná markmiði um kolefnishlutleysi og uppfylla þær lagakröfur sem taka gildi á árunum 2023-2025.
Verkefninu er skipt upp í þrjá þætti: rekstur sjóðsins, fjárfestingar og skýrslu- og upplýsingagjöf.
Vegvísirinn er þó aðeins hluti að leiðinni að kolefnishlutleysi þar sem sjóðurinn þarf að ákvarða hvaða aðferðarfræði skal beita til að finna grunnlínu kolefnisfótspors sjóðsins svo hægt sé að mæla og setja fram hvernig sjóðurinn stendur í vegferð sinni að markmiði um kolefnishlutleysi. Ýmsar alþjóðlegar stofnanir hafa sett fram aðferðafræði við útreikning á kolefnisspori og kolefnishlutleysi og er ein varðan á vegvísinum tengd því að taka ákvörðun þar um.
Þegar kemur að kolefnisspori sjóðsins vegur hlutur eignasafnsins mun meira en hlutur rekstursins og er því forgangsatriði hjá Birtu að leita leiða til að minnka það. Til þess að hægt sé að draga úr kolefnisspori þarf hins vegar að vita hver staðan á eignasafninu er og hefur sjóðurinn því hafið vegferðina með því að mæla kolefnisspor innlendra, skráðra félaga sem er fyrsti flokkur eignahluta í félögum og sjóðum í skýringu 8 í ársreikningi þar um.
Birta er umhverfisvottaður sjóður
Birta hefur frá árinu 2019 haldið utan um alla losun GHL frá eigin rekstri en í ár var fyrsta skrefið tekið í að ná utan um losun GHL frá eignasafni Birtu með mælingum á kolefnisfótspori innlendra skráðra hlutafélaga. Árið 2021 var gerður samningur við félagið Klappir á sjálfbærnikerfi sem gerir sjóðnum kleift að ná annars vegar utan um fjármagnaða losun, þ.e. losun GHL sem stafar af fjárfestingum og hins vegar til þess að afla upplýsinga um UFS frammistöðu fjárfestinga.
Losun GHL skráðra íslenskra félaga frá eignasafni Birtu kemur mestmegnis frá ferðaþjónustu og vöruflutningum eins og við var að búast. Þar fara flugfélögin tvö; Icelandair og Play fremst í flokki ásamt Eimskip. Heildarlosun GHL lækkar lítillega milli ára þrátt fyrir að tvö félög hafi komið inn á markaðinn á síðasta ári. Þessi greining gefur okkur betri mynd af stöðunni á innlenda markaðnum þó þetta sé aðeins lítill hluti af eignasafni Birtu eða um 13% af fjárfestingum sjóðsins.
Vert er að geta þess að við samanburðinn má sjá að mikil vinna er framundan bæði hjá sjóðnum sem og félögunum við að ná betur utan um hvaða upplýsingar þarf að birta og þá sérstaklega m.t.t. óbeinnar losunar undir umfangi 3. Með samræmdum ESB reglugerðum munu upplýsingar um kolefnisspor fyrirtækja verða skilmerkilegri og samanburðarhæfari og því er sjóðurinn vongóður að hægt verði að ná utan um heildarlosun alls eignarsafnsins í náinni framtíð. Í kjölfarið verður þá hægt að setja skýr markmið um samdrátt og aðgerðir þar að lútandi.
Þá standa vonir til þess að þegar fram í sækir verði einnig hægt að sækja upplýsingar um félagslega þætti, sbr. jafnrétti kynjanna, starfsmannaveltu, starfsánægju, öryggismál og aðra velferð starfsmanna, út frá stöðluðum upplýsingum frá þessum sömu félögum.
Reglugerðir og tilskipanir um sjálfbærniupplýsingagjöf
Skortur á samræmdri upplýsingagjöf frá útgefendum verðbréfa um þá þætti sem liggja til grundvallar viðmiðum um sjálfbærni félaga og fjárfestingareigna verið afar hamlandi þáttur í innleiðingu Birtu lífeyrissjóðs á grundvallarviðmiðum SÞ í fjárfestingarstarfsemi sjóðsins. Það stendur þó allt til bóta þar sem styttist í innleiðingu á nýjum ESB reglugerðum: þ.e. reglugerð um flokkunarkerfi fyrir sjálfbæran rekstur (e. EU Taxonomy), reglugerð um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (e. SFDR) og tilskipun um form og efni sjálfbærniupplýsinga fyrirtækja og fjárfesta á Íslandi (e. CSRD). Samtryggingardeild Birtu lífeyrissjóðs mun að öllum líkindum falla undir CSRD-tilskipunina en séreignadeildin undir SFDR-reglugerðina.
Markmiðið með innleiðingu ofangreindra reglugerða og tilskipana í íslenska löggjöf er að stuðla að samræmdari upplýsingagjöf um ófjárhagslega þætti í rekstri fyrirtækja sem hjálpar m.a. stofnanafjárfestum eins og lífeyrissjóðum að bera kennsl á ákveðna þætti í rekstri fyrirtækja sem tengjast sjálfbærni og hvernig þeim miðar áfram í þeim efnum.
Til að byrja með tekur innleiðing Taxonomy-reglugerðarinnar einungis til þátta sem tengjast verndun á umhverfinu og markmiðum samhliða því sem miða að því að draga úr útblæstri á gróðurhúsalofttegundum.
Birta hefur þegar byrjað að undirbúa sig fyrir þessa innleiðingu þar sem hún kallast á við stefnu sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar og virka eigendastefnu. Í því felst m.a. að uppfæra stefnu sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar og gaumgæfa þau skilyrði sem SFDR reglugerðin leggur á aðila á fjármálamarkaði og jafnframt hvaða kröfur CSDR tilskipunin gerir um form og efni sjálfbærniupplýsinga fyrirtækja og fjárfesta á Íslandi.