Starfsemi

Meginhlutverk Birtu er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri.

Starfsemi sjóðsins

Birta lífeyrissjóður er fullgildur lífeyrissjóður og hefur starfsleyfi samkvæmt Seðlabanka Íslands

Birta lífeyrissjóður starfar á grundvelli samþykkta og samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Einnig starfar lífeyrissjóðurinn á grundvelli samkomulags stéttarfélaga og atvinnurekenda frá 19. maí 1969 með síðari breytingum. Hlutverk Birtu lífeyrissjóðs er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri í samræmi við samþykktir sjóðsins og með hliðsjón af lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Birta lífeyrissjóður starfar á tveimur mörkuðum, íslenskum tryggingamarkaði og fasteignalánamarkaði. Sjóðurinn býður upp á tryggingavernd í formi skyldusparnaðar lífeyrisréttinda, séreignarsparnað og sjóðfélagalán. Samtryggingardeild sjóðsins veitir lágmarkstryggingarvernd samkvæmt samþykktum sjóðsins og lögum þar um og er veigamesti þátturinn í starfsemi sjóðsins. Séreignardeild Birtu veitir viðbótartryggingarvernd í formi séreignarsparnaðar með samningum þar um. Sjóðfélagar hafa kost á að taka fasteignalán hjá sjóðnum að uppfylltum skilyrðum.

Tryggingavernd og fjármálaþjónusta Birtu
Skyldusparnaður, séreignarsparnaður og sjóðfélagalán
Lífeyrir
  • Skyldusparnaður leggur grunn að lífinu eftir starfslok.
  • Skyldusparnaður veitir rétt til örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris.
  • 16.638 lífeyrisþegar nutu lífeyrisgreiðslna á árinu.
Séreign
  • Viðbót við lögbundinn lífeyrissparnað.
  • Eign sjóðfélaga sem erfist að fullu.
  • 2.433 virkir sjóðfélagar greiddu í séreignardeild á árinu.
Lán
  • Lántakendur gátu valið um verðtryggð lán með breytilegum eða föstum vöxtum.
  • Viðbótarlán fyrir kaupendur fyrstu fasteigna.
  • 281 ný lánveiting til sjóðfélaga á árinu.
Fjöldi greiðandi og virkra sjóðfélaga
Samtryggingardeild 2022 2021 2020 2019 2018
Fjöldi virkra sjóðfélaga 16.462 16.192 16.014 15.805 16.284
Heildarfjöldi greiðandi sjóðfélaga 18.748 18.192 18.205 18.284 18.806
Fjöldi lífeyrisþega 16.638 15.885 15.300 14.568 13.789
Fjöldi sjóðfélaga 101.178 99.730 98.745 97.630 96.412

Þú ert nr. 1 í röðinni

Góð þjónusta skiptir okkur máli

Sjóðurinn leggur áherslu á góða þjónustu og ferla sem tryggja skilvirkni og öryggi fyrir sjóðfélaga. Sjóðfélagar kjósa í auknu mæli að sinna erindum sínum með rafrænum hætti og utan hefðbundinna opnunartíma sjóðsins. Það er því mikilvægt fyrir sjóðinn að vera í stöðugri framþróun við að bæta ferla og stafræna vegferð.

Flestar umsóknir sem berast sjóðnum fara í gegnum rafrænt umsóknarferli þar sem málum er fylgt eftir frá upphafi til enda. Málið hefst í gáttinni á mínum síðum sjóðfélaga og flæðir þaðan inn í málakerfið þar sem starfsmaður tekur á móti málinu. Þau mál sem berast ekki með rafrænum hætti eru skráð í málakerfið þar sem málið er stofnað af starfsmanni og málsmeðferð hefst. Um leið og mál er stofnað í kerfinu er því fylgt eftir með rekjanleika í ákveðnum skrefum í samræmi við verklagsreglur og vinnulýsingar. Verklagið tryggir samræmda og faglega afgreiðslu mála. Nýju ári fylgja ný tækifæri til að gera góða þjónustu enn betri.

Gagnagreining og mælaborð sem auka skilvirkni

Með mælaborðinu er hægt að skoða stöðu mála og fylgjast með ferli þeirra

Birta lífeyrissjóður fylgir málum eftir með mælaborði (MS Power BI). Gögn eru oft á tíðum umfangsmikil og vanýtt auðlind en með því að fylgjast með ferli mála er hægt að skoða hvaða tækifæri eru til að bæta þjónustu og efla viðskiptaþróun. Með mælaborðinu hafa starfsmenn Birtu aðgang að margskonar upplýsingum um stöðu mála, rekstur sjóðsins, tækifæri til hagræðingar og möguleika til að ná betri árangri.

Mælaborð Birtu er byggt upp úr gögnum úr skjala- og málakerfinu GoPro. Gögnin keyrast sjálfvirkt inn í mælaborðið tvisvar á dag sem gefur starfsmönnum möguleikann á að fylgjast með stöðu mála í rauntíma. Mælaborðið sýnir með myndrænum hætti hvar í ferlinu umsóknir eru á hverjum tíma fyrir sig og hversu margar umsóknir koma inn á dag. Einnig er að finna afgreiðsluhraða á öllum fösum umsóknarferlisins sem gefur stjórnendum yfirsýn yfir það hvort flöskuhálsar séu í ferlinu.

Fjöldi afgreiddra umsókna árið 2022
  • Eftirlaun - 1.612
  • Örorkulífeyrir - 368
  • Makalífeyri og/eða barnalífeyri - 268
  • Samningur um séreignarsparnað - 144
  • Útborgun úr séreignardeild - 416
  • Tilkynning um ráðstöfun iðgjalds í tilgreinda séreign - 911
  • Lán - 281

Gæða- og skjalastjórnun

Gæðaskjölin tryggja að unnið sé eftir samræmdu verklagi innan sjóðsins

Gæðahandbók sjóðsins er sett upp í CCQ gæðakerfinu, sem heldur utan um gæðaskjöl sjóðsins, þ.e. stefnur, reglur, verklagsreglur, vinnulýsingar, leiðbeiningar og eyðublöð. Kerfið heldur einnig utan um ábyrgðaraðila skjala, útgáfudagsetningar og hvenær tími er kominn á endurskoðun skjala.

Mikil vinna hefur farið fram frá stofnun Birtu lífeyrissjóðs við að sameina og samþætta ferla, reglur og vinnulýsingar frá forverum sjóðsins. Gæðaskjölin tryggja að unnið sé eftir samræmdu verklagi innan sjóðsins og draga úr rekstraráhættu, skjalaáhættu og starfsmannaáhættu.

Helstu atburðir í starfsemi sjóðsins

Árið 2022 var viðburðaríkt og gekk starfsemi sjóðsins vel

Hækkandi lífaldur – Nýjar réttindatöflur

Lífslíkur okkar hafa aukist jafnt og þétt undanfarna áratugi. Framfarir hafa orðið í læknavísindum og fólk er meðvitaðra um heilsuna og áhrif heilbrigðis lífernis á bætt lífsgæði og lengri lífaldur. Það mun leiða til þess að fjöldi fólks á lífeyrisaldri, við góða heilsu og óskerta starfsgetu, mun aukast verulega. Þessi þróun hefur áhrif á skuldbindingar lífeyrissjóða.

Aðeins breytingar á framtíðarávinnslu réttinda.

Stjórn Birtu lífeyrissjóðs ákvað í október 2022 að gera breytingar á réttindatöflum sjóðsins. Reiknuð er réttindatafla fyrir hvern árgang þar sem 0,3% munur er á réttindaávinnslu á milli árganga sem leiðir til sambærilegrar niðurstöðu og að seinka viðmiðunarári um tvo mánuði þar til jafnvægi er náð. Nýjar réttindatöflur gilda eingöngu um framtíðarávinnslu og hafa því ekki áhrif á áfallin réttindi.

Í lok árs 2022 samþykkti Fjármála- og efnahagsráðuneytið þessar nýju samþykktir sjóðsins þar sem réttindaöflun til framtíðar er aðlöguð að breyttum aðferðum við að meta lífslíkur. Þessar breytingar á réttindatöflum tóku gildi 1. janúar 2023.

Aukið val sparnaðarleiða í Tilgreindri séreign

Í janúar 2022 gafst sjóðfélögum kostur á auknu vali sparnaðarleiða í Tilgreindri séreign. Áður var um eina sparnaðarleið að velja en nú geta sjóðfélagar valið um þrjár leiðir og tekið mið af aldri, eignastöðu og viðhorfi til áhættu við valið.

Tilgreind séreign er sérstök tegund séreignarsparnaðar þar sem sjóðfélagar geta valið að ráðstafa allt að 3,5% skylduiðgjaldi í séreignarsjóð.

Breytingar á lögum um lífeyrissjóði

Á árinu 2022 afgreiddi Alþingi breytingar á lögum um lífeyrissjóði sem komu til framkvæmda 1. janúar 2023. Helstu breytingar með nýju lögunum eru eftirfarandi:

  • Lágmarksiðgjald hækkar úr 12% af launum í 15,5%
  • Heimilt verður að bjóða sjóðfélögum að ráðstafa allt að 3,5% af launum í svonefnda tilgreinda séreign með þrengri útborgunarheimildum en hefðbundinn séreignarsparnaður (viðbótarlífeyrissparnaður)
  • Nýta má tilgreinda séreign til kaupa á fyrstu fasteign að uppfylltum ákveðnum skilyrðum auk þess sem sjóðfélagar sem ekki hafa verið eigendur að íbúðarhúsnæði í fimm ár geta talist fyrstu kaupendur og nýtt heimildir laganna
  • Séreign af lögbundnu lágmarksiðgjaldi verður ekki lengur undanþegin skerðingu greiðslna frá Tryggingastofnun
Stafræn þróun og viðskiptamannakerfi

Viðskiptamannakerfi

Á árinu 2022 hófst vinna við innleiðingu á viðskiptamannakerfi. Upplifun sjóðfélaga skiptir okkur máli og með innleiðingu á viðskiptamannakerfi munum við halda utan um samband við okkar sjóðfélaga og viðskiptavini. Við leggjum mikla áherslu á að veita framúrskarandi þjónustu og mun kerfið hjálpa okkur við að bæta upplifun sjóðfélaga og viðskiptavina, fylgjast betur með ánægju þeirra, bregðast við ábendingum og halda betur utan um öll samskipti.

Nýr sjóðfélagavefur

Á árinu hófst vinna við að uppfæra sjóðfélagavef á heimasíðu Birtu og fer uppfærður vefur í loftið í maí 2023. Á sjóðfélagavef er hægt að finna upplýsingar um réttindi, stöðu iðgjalda og önnur mál.

Áherslur í upplýsingum um sjálfbærni

Á næstu misserum mun verða umfangsmikið verkefni að innleiða nýtt ESB regluverk og tilskipanir í tengslum við sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja (e. CSRD), innleiðingu vegna reglugeða um flokkunarkerfi fyrir sjálfbæran rekstur (e. EU Taxonomy) og innleiðingu reglugerða um upplýsingagjöf um sjálfbærni í fjármálaþjónustu (e. SFRD). Samkvæmt SFDR reglugerðinni þarf sjóðurinn m.a. að innleiða í stefnu sína UFS viðmið sem taka þarf tillit til við áhættumat fjárfestinga. Sjá nánari umfjöllun í köflum 1.5 Ábyrgar fjárfestingar og 3.2 Leiðin að kolefnishlutleysi.