Hrönn Jónsdóttir
Árið 2022 var erfitt ár en þrátt fyrir þunga eignamarkaði og verðbólguskot getum við verið stolt af starfseminni. Við höfum brugðist við því sem við getum brugðist við og fylgjumst vel með áhættu og ytri þáttum sem erfitt er að hlutleysa.
Okkur hefur þannig tekist að hagræða í rekstri og lækka kostnaðarhlutföll án þess að skerða þjónustu enn eitt árið. Í stórum lífeyrissjóði er auðvelt að missa sjónar á kostnaði og þess vegna byggjum við aðhaldskröfuna á skynsemi þar sem útgjöld eru vel ígrunduð. Kostnaðarvitund bitnar ekki á gæðum þjónustunnar og teljum við okkur hafa hagrætt með langtíma ávinning í huga.
Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður sem hlutfall af meðalstöðu eigna hefur til að mynda lækkað stöðugt frá árinu 2016 úr 0,22% niður í 0,14% á síðasta ári. Yfir þetta tímabil hefur vegin hækkun launavísitölu og verðlags mælst um 40% en kostnaður Birtu hækkað um 24% á sama tíma. Það jafngildir um 2,7% kostnaðarhagræði á ári yfir sex ára tímabil. Þessum árangri höfum við náð með kostnaðarárvekni, endurskipulagningu og hagnýtingu upplýsingatækninnar.
Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með starfsfólki takast á við hagræðingarkröfuna á sama tíma og það svarar VR könnun Gallup þess efnis að vinnustaðurinn endurspegli heilbrigðan og eðlilegan starfsanda. Það er flókið að hagræða í rekstri og það skiptir okkur öllu máli að vel takist til. Stöðugildi síðasta árs mældust 27 og fækkaði á milli ára og hefur fækkað um 3,5 frá 2016. Yfir þetta tímabil hefur Birta tekið út mikinn vöxt og okkur hefur tekist vel til við krefjandi aðstæður. Ég veit að ég tala fyrir hönd stjórnar þegar ég segi ykkur að starfsfólk Birtu brennur fyrir því sem það gerir og veitir bæði stjórn og sjóðfélögum góða þjónustu.
Það fylgir því mikil ábyrgð að fara fyrir stórum lífeyrissjóð sem á í reglulegum viðskiptum við sjóðfélaga og mótaðila á eignamörkuðum. Við leggjum mikið traust á starfsfólk og veitum þeim bæði stuðning og aðhald. Stjórn Birtu hefur endurskoðunarnefnd sér til stuðnings sem fylgist með eftirlitsstarfsemi sjóðsins. Þegar við segjum að kostnaðarvitund bitni ekki á gæðum horfum við til athugasemda innri og ytri endurskoðenda sem benda eindregið til þess að starfsfólk fylgir lögum og reglum sem um starfsemina gilda og kappkosta við að læra af frávikum. Öll gerum við mistök sem er mannlegt og því eru frávik skráð hjá Birtu og nýtt í umbótastarfi. Í þeirri hagræðingu sem á undan er gengin hefur starfsfólk tekið aukna ábyrgð og leitast er við að láta upplýsingatæknina vinna með og fyrir starfsfólk og sjóðfélaga. Þannig hefur tekist að sporna við kostnaðarskriði og hagræða í rekstri með augljósum virðisauka fyrir sjóðfélaga.
Eins og ársreikningur og ársskýrsla Birtu bera með sér þá vinnur Birta á innlendum og erlendum eignamörkuðum og dreifir áhættu víða. Þegar eignamarkaðir eru sjóðnum mótdrægir er ekki óeðlilegt að ávöxtun beri þess merki. Þrátt fyrir 1,5% neikvæða nafnávöxtun síðasta árs getum við verið sátt við eigna- og áhættustýringu Birtu. Verðbólgan kom okkur á óvart og þegar tekið er tillit til hennar mældist ávöxtun neikvæð um -9,9%. Meðalraunávöxtun samtryggingardeildar síðustu fimm ára er 4,1%. Okkur hefur tekist að byggja upp öfluga og sjálfstæða eigna- og áhættustýringu sem hefur frelsi til athafna innan þeirra marka sem stjórn setur í stefnuskjölum. Ávöxtun og áhætta sjóðsins er í samræmi við þau viðmið sem sjóðurinn hefur sett og stenst fyllilega samanburð við aðra sambærilega sjóði.
Það er eðlilegt að haghafar Birtu hafi skoðun á fjárfestingarstarfseminni, þannig á það líka að vera. Opin og hreinskiptin umræða um eigendastefnu er okkur öllum mikilvæg. Samspil hennar við fjárfestingar- og áhættustefnu er snar þáttur í okkar samtali um sjálfbæran rekstur til framtíðar. Stjórnarhættir sem miða að því að ávaxta eignir í blómlegu atvinnulífi og vinnumarkaði sem er í sátt og samlyndi við umhverfið og samfélagið sem við lifum í. Sjóðurinn birtir nú í fjórða sinn ársskýrslu í samræmi við alþjóðlega sjálfbærnistaðla. Þá hefur sjóðurinn tekið þátt í umræðu um langtíma sjónarmið sem tengjast sjálfbærni og við erum vel undirbúin undir þær breytingar sem boðaðar hafa verið í upplýsingamiðlun um sjálfbærni.
Eins og áður hefur verið rakið þá samþykkti fjármála- og efnahagsráðuneytið árið 2021 tillögur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga þess efnis að reikna lífslíkur með breyttum hætti. Sú breyting var gerð að nú er stuðst við spá um væntar lífslíkur til framtíðar í stað þess að styðjast eingöngu við reynslu fyrri ára. Á síðasta ári brást stjórn við með breytingum á réttindaávinnslu til framtíðar sem tryggir tryggingafræðilegt jafnvægi. Þrátt fyrir það leiðir neikvæð ávöxtun síðasta árs til halla á áföllnum réttindum sem kastljós okkar mun beinast að á þessu ári.
Að endingu kæru sjóðfélagar er það stjórnarstarfið sem við leggjum í ykkar dóm. Stjórn Birtu hefur lagt mat á eigið starf og birtir það í ársskýrslu eins og áður hefur verið gert. Það er okkar mat að stjórnarstarfið á síðasta ári hafi endurspeglað heilbrigða og góða stjórnarhætti og með ársreikningi og ársskýrslu leggjum við okkar árangur fyrir ykkur fulltrúa og sjóðfélaga til umræðu sem við víkjum okkur ekki undan. Að því sögðu þakka ég stjórn og starfsfólki sjóðsins fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf og sjóðfélögum fyrir samfylgdina á árinu 2022.