Samkvæmt 8. tl. 3. mgr. 29. gr. laga nr. 129/1997 ber stjórn lífeyrissjóðs m.a. að móta innra eftirlit lífeyrissjóðsins og skjalfesta eftirlitsferla.
Skv. reglum SÍ nr. 577/2012 um endurskoðunardeildir og sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila lífeyrissjóða er innra eftirlit skilgreint sem:
„... sérhver aðgerð af hálfu stjórnenda, stjórnar og starfsmanna til að stýra áhættu og auka líkur á að settum markmiðum verði náð við rekstur fyrirtækis eða stofnunar. Stjórnendur undirbúa, skipuleggja og stjórna þeim aðgerðum sem þörf er á innan fyrirtækis eða stofnunar til að veita hæfilega vissu fyrir að settum markmiðum verði náð.“
Innra eftirlit sjóðsins birtist m.a. í verklagsreglum sjóðsins og innri ferlum sem gilda um alla þætti í starfsemi hans, þ.m.t. bókhald, iðgjöld, lífeyri, veðskuldabréf, eignastýringu, rekstur og skjalastjórnun.
Regluvörður sjóðsins hefur eftirlit með viðskiptum stjórnarmanna og stjórnenda Birtu með fjármálagerninga. Auk þess heldur hann utan um upplýsingar um eignarhald þeirra í félögum og trúnaðarstörf þeirra fyrir félög. Þrátt fyrir að húsnæðislán teljist ekki til hagsmunatengsla er stjórn sjóðsins upplýst um það ef slík lán eru í vanskilum.
Samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða ber sjóðnum að starfrækja innri endurskoðunardeild eða semja við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila til að annast innra eftirlit. Sjóðurinn hefur samið við Helgu Harðardóttur hjá KPMG um að annast innri endurskoðun sjóðsins. Innri endurskoðandi vinnur í samræmi við samning um innri endurskoðun sem endurnýjaður var í ágúst 2020 og leggur fram innri endurskoðunaráætlun fyrir endurskoðunarnefnd sjóðsins, sem hefur eftirlit með störfum innri endurskoðanda. Niðurstöður innri endurskoðunar eru kynntar fyrir endurskoðunarnefnd, stjórn og stjórnendum sjóðsins. Nánar er kveðið á um hlutverk og eftirlitsskyldur innri endurskoðanda í reglum SÍ nr. 577/2012.
Samkvæmt samþykktum sjóðsins skal ársreikningur sjóðsins vera endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda. Endurskoðandi sjóðsins er kjörinn á ársfundi eftir umsögn endurskoðunarnefndar. Á ársfundi 2021 var Kristinn F. Kristinsson hjá PwC endurkjörinn sem endurskoðandi sjóðsins. Ársreikningur sjóðsins er endurskoðaður í samræmi við lög um endurskoðendur og endurskoðun nr. 94/2019 og alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Til staðar er ráðningarbréf undirritað í september 2020 þar sem ábyrgð og skyldur endurskoðanda og stjórnenda eru skilgreind. Samskiptaáætlun endurskoðanda er lögð fyrir endurskoðunarnefnd til umfjöllunar.
Skv. 9. tl. 3. mgr. 29. gr. laga nr. 129/1997 ber stjórn lífeyrissjóðs að setja áhættustefnu og móta eftirlitskerfi með áhættu sjóðsins.
Um áhættustýringu lífeyrissjóða gilda ákvæði laga og reglugerða, þ.m.t. reglugerð nr. 590/2017 um eftirlitskerfi með áhættu lífeyrissjóða. Á grundvelli þessa hefur Birta sett sér áhættustefnu þar sem skilgreind er áhætta sem fylgir starfseminni og viðunandi mörk sett eftir því sem við á.
Nánar er fjallað um áhættustýringu sjóðsins í kafla 2.9 Áhættustýring og í skýringu 18 í ársreikningi.