Tryggingafræðileg athugun á stöðu Birtu lífeyrissjóðs í lok árs 2022 var unnin af Bjarna Guðmundssyni tryggingastærðfræðingi í samræmi við ákvæði 8. greinar samþykkta sjóðsins.
Í tryggingafræðilegri athugun felst samanburður á verðmæti eigna sjóðsins og iðgjalda við skuldbindingar til greiðslu lífeyris sem leiðir af samþykktum sjóðsins. Lög um starfsemi lífeyrissjóða og samþykktir sjóðsins setja vikmörk fyrir þann mun sem heimilaður er milli eigna og skuldbindinga. Birta lífeyrissjóður veitir réttindi í samtryggingardeild og rekur auk þess séreignardeild og tilgreinda séreignardeild. Í tryggingafræðilegri athugun er eingöngu fjallað um skuldbindingar og eignir samtryggingardeildar. Mat á skuldbindingum byggir á upplýsingum um réttindi sjóðfélaga úr réttindabókhaldi sjóðsins. Við mat eignaliða er einnig stuðst við upplýsingar úr ársreikningi og fjárhagsbókhaldi sjóðsins.
Skuldbindingar vegna iðgjalda, sem greidd hafa verið til sjóðsins til loka árs 2022, kallast áfallnar skuldbindingar. Heildarlífeyrisskuldbindingar taka einnig tillit til þeirra skuldbindinga sjóðsins sem áætlaðar fyrir réttindum ógreiddra iðgjalda greiðandi sjóðfélaga um síðastliðin áramót. Ákvæði laga um heimil vikmörk lúta að mun á heildarskuldbindingum og endurmetnum eignum að viðbættu verðmæti framtíðariðgjalda.
Forsendur um lífslíkur eru óbreyttar frá síðustu tryggingafræðilegri athugun hvað varðar notkun á reiknilíkani sem áætlar lækkun dánartíðni til framtíðar í stað þess að styðjast eingöngu við reynslu fyrri ára.
Skuldabréf í eigu sjóðsins eru núvirt miðað við sömu ávöxtunarforsendu og skuldbindingar, þ.e. 3,5% umfram hækkun vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Óverðtryggðar eignir eru núvirtar miðað við 3,5% ávöxtun umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, sem var 2,5% þegar athugunin var gerð. Útreikningar á endurmati eigna eru yfirfarnir af starfsmanni sjóðsins.
Tryggingafræðilegt mat á lífeyrisskuldbindingum ber að skoða sem vænta niðurstöðu úr reiknilíkani þar sem byggt er á forsendum háðum óvissu. Mismunur niðurstöðu reiknilíkansins og raunveruleika getur komið fram vegna tilviljanasveiflna, einkum þegar sá hópur sem reiknað er fyrir er lítill og einnig vegna þeirrar miklu óvissu sem er um forsendur sem notaðar eru. Forsendur reiknilíkansins lúta að vöxtum, dánarlíkum og öðrum forsendum áratugi fram í tímann og því nánast óhjákvæmilegt að frávik komi fram frá þeim forsendum sem reiknað er eftir.
Niðurstaða athugunarinnar er að verðmæti eigna sjóðsins, að meðtöldum iðgjöldum reiknast 825.023 milljónir króna og mat skuldbindinga vegna lífeyris að viðbættum kostnaði vegna rekstrar 881.204 milljónir króna. Mismunur eigna og skuldbindinga reiknast því -56.180 milljónir króna eða -6,38% af skuldbindingum.
Í lok árs 2022 samþykkti Fjármála- og efnahagsráðuneytið nýjar samþykktir sjóðsins þar sem réttindaöflun til framtíðar er aðlöguð að breyttum aðferðum við að meta lífslíkur. Samkvæmt spá Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga um væntar lífslíkur til framtíðar má gera ráð fyrir að lífslíkur batni um tvo mánuði á ári hverju. Þannig er gert ráð fyrir að lífslíkur þeirra sem yngri eru muni batna meira en þeirra sem þegar eru komnir á lífeyri.
Nú ávinnur hver fæðingarárgangur sér mismunandi rétt til framtíðar, sem er í samræmi við betri lífslíkur þeirra sem yngri eru og því hefur hver árgangur nú sína réttindatöflu sem á þó aðeins við um iðgjöld greidd eftir árið 2022, þar sem ekki er gerð breyting á áföllnum réttindum.
Áhrif nýrra réttindataflna á sjóðinn er því 3,87% aukning á heildarskuldbindingum og stendur því tryggingafræðileg staða hans í -6,38%. Áfallin skuldbinding er neikvæð um 10,07% en framtíðarskuldbinding hefur náð jafnvægi og eru eignir umfram skuldbindingu 1,66%. Eftir þrjú mjög góð ár ávöxtunar var ávöxtun síðasta árs undir viðmiðunarvöxtum tryggingafræðilegra athugana sem skýrir aukningu á áföllnum skuldbindingum.
Staða sjóðsins er innan þeirra almennu marka sem áskilin eru í lögum nr. 129/1997 um að munur eigna og skuldbindinga fari ekki umfram 10% eða samfellt yfir 5% fimm ár í röð.
Gögn sem tryggingastærðfræðingur vinnur með eru ekki á persónugreinanlegu formi
Tryggingarstærðfræðingur fær gögn úr réttindabókhaldi sjóðsins tengd iðgjöldum og lífeyrisgreiðslum, m.a. er tengjast réttindaöflun og iðgjaldagreiðslur þeirra sem hafa greitt til sjóðsins, tegund lífeyris sem greiddur er, fjárhæð lífeyris, upplýsingar um fæðingardag og fleira. Gögn sem tryggingastærðfræðingur vinnur með eru ekki á persónugreinanlegu formi.
Úr ársreikningum sjóðsins fengust upplýsingar um kostnað við rekstur síðastliðin þrjú ár og auk þess um eignastöðu sjóðsins. Úr verðbréfakerfi eru fengnar upplýsingar um greiðslukjör skuldabréfa og gengi hlutabréfa og verðbréfasjóða á markaðsverði. Iðgjaldagreiðslur ársins 2022 hafa verið bornar saman við iðgjaldagreiðslur samkvæmt ársreikningi og lífeyrisgreiðslur desember 2022 bornar saman við lífeyrisgreiðslur ársins samkvæmt ársreikningi. Þá hafa upplýsingar um réttindi sjóðfélaga verið bornar saman við samsvarandi upplýsingar frá athugun fyrra árs. Þessar athuganir benda ekki til annars en að byggja megi mat skuldbindinga sjóðsins á þeim gögnum sem fyrir liggja úr réttindakerfi en gögn hafa ekki verið sannreynd með samanburði við frumgögn eða öðrum hætti.
Taflan sýnir niðurstöðu úttektar á heildarskuldbindingu sjóðsins 2022 og til samanburðar árið 2021
Breyting milli ára | |||
-0,8% | |||
-84,3% | |||
13,5% | |||
5,5% | |||
Breyting milli ára | |||
9,8% | |||
9,6% | |||
9,4% | |||
15,3% | |||
13,9% | |||
10,3% | |||
9,8% | |||
Skuldbindingar samtryggingardeildar eru metnar meðal annars út frá áföllnum lífeyrisskuldbindingum sem sýnir áunnin réttindi sjóðfélaga um áramót. Myndin sýnir áfallna skuldbindingu vegna áunninna réttinda í byrjun árs 2022 og stöðuna í árslok 2022 ásamt sundurgreiningu á þeim þáttum sem urðu á árinu 2022 bæði til lækkunar og hækkunar á áfallinni skuldbindingu.
Tryggingafræðileg staða sjóðsins er -6,38%
Tryggingafræðileg úttekt miðað við árslok 2022 sýnir að heildarskuldbindingar sjóðsins voru 6,38% umfram heildareignir en voru 2,5% umfram heildareignir í árslok 2021. Niðurstöður tryggingafræðilegrar stöðu Birtu lífeyrissjóðs, miðað við árslok 2022, má sjá í yfirliti um tryggingafræðilegra stöðu samtryggingardeildar í ársreikningi. Í skýringu 15 er yfirlit um breytingu á tryggingafræðilegri stöðu samtryggingardeildar.
Helstu þættir sem hafa áhrif á stöðu sjóðsins eru ávöxtun, lýðfræðilegir þættir og rekstrarkostnaður. Lífeyrissjóðurinn framkvæmir reglulega álagspróf en markmiðið með því er að meta hvort tryggingafræðileg staða sjóðsins verði undir -10% miðað við mismunandi fyrirframgreinda álagsþætti. Niðurstöður álagsprófs eru í skýringu 18.3. í ársreikningi.