Sjóðfélaga­lán

Sjóðfélagar sem greitt hafa til samtryggingardeildar hjá Birtu lífeyrissjóði geta sótt um húsnæðislán hjá sjóðnum, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Birta býður þrjár tegundir lána, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum auk hærri veðsetningar fyrir kaupendur fyrstu fasteigna.

Sjóðfélagalán

Með lánareiknivél á heimasíðu sjóðsins er hægt að kynna sér hvaða tegund lána hentar best

Í ársbyrjun 2022 tóku gildi breyttar og endurskoðaðar lánareglur en aðalbreytingin var sú að opnað var aftur fyrir umsóknir um óverðtryggð lán sem hafði verið lokað fyrir síðan í ágúst 2020.

Hámarks veðsetningarhlutfall er 65% af fasteignamati eða kaupverði í fasteignaviðskiptum nema þegar um fyrstu kaup sjóðfélaga er að ræða en þá er veðhlutfallið 75%. Hámarkslánsfjárhæðin eru 65 milljónir króna.

Hægt er að velja milli þriggja lánategunda:

  • Verðtryggð lán með föstum vöxtum
  • Verðtryggð lán með breytilegum vöxtum
  • Óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum

Með lánareiknivél á heimasíðu sjóðsins er hægt að kynna sér hvaða tegund lána og samsetning hentar best. Allar lánategundir eru í boði með jöfnum greiðslum eða jöfnum afborgunum og lánstíminn getur verið á bilinu 5 – 40 ár.

Eftir mikinn samdrátt á veittum fasteignalánum á milli áranna 2020 og 2021 varð aukning í veittum lánum á árinu 2022.

Heildarfjárhæð sjóðfélagalána heldur þó áfram að lækka milli ára en mikið var um uppgreiðslur lána á árinu.

Afgreidd sjóðfélagalán

Fjárhæðir í milljónum kr.

2022 2021 2020 2019
Fjárhæð 6.655 4.600 31.679 20.237
Fjöldi lána 281 229 1.383 986
Meðalfjárhæð 23,7 20,1 22,9 20,5

Veitt sjóðfélagalán eftir lánategund

Fjárhæðir í milljónum kr.

2022 meðalfjárhæð 2021 meðalfjárhæð 2020 meðalfjárhæð
Veitt verðtryggð lán - fastir vextir 0 0,0 10 3,5 264 5,6
Veitt verðtryggð lán - breytilegir vextir 2.662 26,4 3.799 18,9 8.573 22,7
Veitt óverðtryggð lán - breytilegir vextir 3.993 22,2 791 31,6 22.843 23,8
Samtals veitt lán 6.655 4.600 31.679
Lánsréttur hjá Birtu lífeyrissjóði

Lánsrétt hafa sjóðfélagar sem uppfylla að lágmarki eitt eftirfarandi skilyrða:

  • Hafa greitt 6 af sl. 12 mánuðum í samtryggingardeild
  • Hafa greitt að lágmarki 36 mánuði til sjóðsins í samtryggingardeild
  • Sama rétt eiga lífeyrisþegar sem uppfylla skilyrði við töku lífeyris

Endurskoðun reglna um lánveitingar

Lánareglur Birtu tóku breytingum í ársbyrjun 2022

Helsta breytingin var sú að opnað var aftur fyrir umsóknir um óverðtryggð lán sem hafði verið lokað fyrir síðan í ágúst 2020. Í nóvember var vaxtaviðmiði breytilegra verðtryggðra vaxta breytt. Það var gert í kjölfar þeirrar stöðu sem málefni Íbúðalánasjóðs komust í eftir að fjármála- og viðskiptaráðherra birti skýrslu um stöðu sjóðsins í október sl. Þá voru skuldabréf Íbúðalánasjóðs, HFF bréfin, sett á svokallaðan athugunarlista í Kauphöllinni vegna þeirrar óvissu sem ríkti um útgefandann og verðmyndun bréfanna. Breytilegir verðtryggðir vextir Birtu höfðu fylgt ávöxtunarkröfu á þeim flokki íbúðabréfa sem lengstan líftíma hafði hverju sinni að viðbættu vaxtaálagi sem var 0,70 prósentustig. Í ljósi þessarar stöðu sem upp var komin taldi stjórn nauðsynlegt að gera breytingu á reglunni þannig að vextir breytilegu vaxtanna fylgi vöxtum á verðtryggðum ríkisbréfaflokki sem virk verðmyndun er á og er með viðskiptavakt í Kauphöllinni, sá flokkur er nú RIKS 37 0115. Ekki er gerð nein breyting á vaxtaálaginu og verður það áfram 0,70% ofan á meðalávöxtunarkröfu flokksins.

Óbreytt vaxtaálag þýðir í raun að breytilegir vextir Birtu eru að lækka hlutfallslega því að vextir HFF bréfanna hafa verið hærri en á RIKS bréfunum undanfarin ár og hefur munurinn farið vaxandi síðustu 2-3 árin.

Fasteignalán til neytenda

Lög nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda

Sjóðfélagalán falla undir lög nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Lögin leggja ríka skyldu á herðar lánveitendum um upplýsingamiðlun til neytenda. Lögin tóku gildi 1. apríl 2017 og leystu af hólmi eldri lög nr. 33/2013, hvað fasteignalán varðar.

Reglur um hámarksgreiðslubyrði fasteignalána

Reglur um hámarksgreiðslubyrði fasteignalána sem tóku fyrst gildi í desember 2021 voru endurskoðaðar og hertar í júní 2022. Það er Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands sem setur reglurnar um hámark á greiðslubyrði fasteignalána í samræmi við 27. gr. laga nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda. Markmið nefndarinnar með þessum reglum er að varðveita fjármálastöðugleika, treysta viðnámsþrótt lánveitenda og neytenda gagnvart ójafnvægi á húsnæðismarkaði og draga úr kerfisáhættu til lengri tíma litið, eins og kemur fram í tilkynningu nefndarinnar sem kynnt var 29. september 2021.

Samkvæmt reglunum má hámark greiðslubyrðarhlutfall á nýjum fasteignalánum vera 35% af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum lántaka en 40% fyrir fyrstu kaupendur. Við útreikning á greiðslubyrðarhlutfallinu skulu lánveitendur miða greiðslubyrði óverðtryggðra lána við 40 ára lánstíma en við 25 ára lánstíma fyrir verðtryggð lán. Við útreikning skal að lágmarki miða við samningsvexti viðkomandi lána, þó ekki lægri en 5,5% af óverðtryggðum lánum og 3% vexti af verðtryggðum lánum. Lántakar sem standast skilyrðin út frá hámarkslánstíma geta áfram tekið styttri lán með hærri greiðslubyrði ef þeir standast greiðslumat m.v. þær forsendur. Jafnframt verður áfram hægt að taka lengri verðtryggð lán en til 25 ára.

Lánsupphæð, lánstími og lánskjör

Á árinu 2022 var opið fyrir bæði verðtryggð og óverðtryggð sjóðfélagalán. Verðtryggðu lánin eru annarsvegar með breytilegum vöxtum og hins vegar á föstum vöxtum en óverðtryggðu lánin eru á breytilegum vöxtum allan lánstímann. Veðhlutfall lána er allt að 65% af kaupverði ef um fasteignaviðskipti er að ræða en allt að 75% ef um fyrstu kaup er að ræða. Ef ekki er um að ræða fasteignakaup þá er hámarksveðhlutfallið 65% af fasteignamati.

Almennir fastir verðtryggðir vextir Birtu lífeyrissjóðs á nýjum lánum eru 3,60%.
Breytilegir verðtryggðir vextir Birtu voru 1,48% í ársbyrjun 2022 en voru komnir í 1,80% í árslok. Þeir eru endurskoðaðir á þriggja mánaða fresti og fylgja þróun vaxta á verðtryggðum ríkisskuldabréfum, nú RIKS 37 0115, að viðbættu álagi.
Breytilegir óverðtryggðir vextir voru 4,85% í ársbyrjun 2022 en voru komnir í 7,60% í árslok. Þeir fylgja meginvöxtum Seðlabanka Íslands að viðbættu álagi.

Lánsupphæð, lánstími og lánskjör

Lánstími lána er 5 – 40 ár, lágmarksfjárhæð er kr. 1 millj. kr. og var að hámarki kr. 65 millj. kr. og hægt er að velja milli jafnra afborgana eða jafnra greiðsla af lánunum.

Afgreiðsla lána

Sjóðfélagar sækja um lán með rafrænum skilríkjum á heimasíðu Birtu, fá rafrænt greiðslumat og afla sjálfir nær allra gagna sem nauðsynleg eru

Miklar framfarir hafa átt sér stað í tengslum við afgreiðslu sjóðfélagalána á undanförnum árum. Nær allar afgreiddar umsóknir um lán og skilmálabreytingar á árinu komu inn með rafrænum hætti og nú undirrita lántakar öll kynningargögn í tengslum við lánsumsóknina með rafrænum skilríkjum. Það eina sem þarf enn að undirrita á pappír er skuldabréfið sjálft og þær skilmálabreytingar sem þinglýsa þarf hjá Sýslumanni.

Það er markmið Birtu að hefja rafrænar þinglýsingar á veðskuldabréfum og þeim skilmálabreytingum sem þarf að þinglýsa sem allra fyrst. Verkefni um rafrænar þinglýsingar hjá Sýslumannsembættunum hefur verið í gangi síðan árið 2019 og í fyrra þá var fyrsta veðskuldabréfi fasteigna þinglýst rafrænt og í árslok var orðið mögulegt að þinglýsa öllum tegundum veðskuldabréfa fasteigna og þeim skilmálabreytingum sem tengjast þeim rafrænt.

Ávinningur rafrænna þinglýsinga er mjög mikill bæði fyrir lánveitendur og lántaka. Biðtími styttist til muna en ekki verður lengur þörf á því að safna undirritunum á pappír og fara handvirkt með pappírinn til þinglýsingar hjá Sýslumanni. Í upphafi verkefnisins var þjóðhagslegur ávinningur þess að innleiða rafrænar þinglýsingar metinn á 1,2 – 1,7 milljarða króna en hann felst í að minnka handvirkt vinnuframlag sýslumanna, lánveitenda, lántaka og fasteignasala. Ofan á það bætist svo ávinningur af því að ekki þarf að ferðast lengur með pappírsskjöl á milli aðila og aukinn hraði í viðskiptum og frágangi mála. Það verður mikill ávinningur og tímasparnaður fyrir sjóðfélaga þegar Birta getur byrjað rafrænar þinglýsingar.

Staða, vanskil og uppgreiðsla sjóðfélagalána

Í árslok 2022 voru lán til sjóðfélaga um 59,8 milljarðar króna en voru 64,6 milljarður árið áður. Þetta eru um 10,5% af heildareignum sjóðsins borið saman við 11,3% árið áður. Vanskil sjóðfélagalána í árslok 2022 námu um 8 milljónum króna og er það 0,013% sjóðfélagalána, vanskilahlutfallið í árslok 2021 var örlítið lægra eða 0,012%.

Uppgreiðslur lána héldu áfram að aukast á árinu en greidd voru upp 600 lán að fjárhæð 10 milljarðar króna samanborið við 676 lán að fjárhæð 8,3 milljarðar árið áður.

Staða sjóðfélagalána í árslok

fjárhæðir í milljónum króna

2022 Fjöldi Meðalfjárhæð 2021 Fjöldi Meðalfjárhæð
Verðtryggð lán - fastir vextir 3.771 262 14,4 4.242 317 13,4
Verðtryggð lán - breytilegir vextir 30.318 1.950 15,5 30.612 2.190 14,0
Óverðtryggð lán - breytilegir vextir 25.695 1.397 18,4 29.731 1.501 19,8
Samtals 59.784 3.609 16,6 64.585 4.008 16,1

Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar

Þann 1. júlí 2017 tóku gildi lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð en þau heimila rétthöfum að verja uppsöfnuðu iðgjaldi séreignar til kaupa á fyrstu íbúð og jafnframt að ráðstafa séreignariðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, upp að ákveðnu hámarki yfir tíu ára samfellt tímabil. Almenn heimild til að nýta séreignasparnað vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða til ráðstöfunar upp í höfuðstól láns sem tekið var vegna kaupanna var framlengd til ársloka 2024.